Keppt með Skyldleik
Post date: Apr 17, 2013 1:57:54 AM
Björn Þór skráði sig til kapps um Íslendingaapp með þá hugmynd í kollinum að útbúa lista yfir vinsælustu nöfnin meðal forfeðra viðkomandi, sem mætti svo innifela sem eiginleika í Nefnunni. Sú hugmynd hafði reyndar kviknað áður en kunngjört var um keppnina. Einnig var pæling að útfæra dýnamískt ættartré.
Eftir setningu keppninnar kviknaði svo við eldhúsborðið hugmyndin að útfæra leik þar sem hvert leikborð samanstæði af einstaklingum úr einum ættlið út frá leikmanni. Þessi hugmynd heillaði mest og úr varð Skyldleikur sem hafnaði í öðru sæti keppninnar.
Ágætis nafn þetta, Skyldleikur, orðaleikur með viðfangsefnið skyldleika og tölvuleik. Upphaflega var ætlunin að kalla þetta Ættspakur/-i.
Hinar hugmyndirnar lifa enn óútfærðar. Vinsældalistann væri gaman að fá inn í Nefnuna og dýnamískt ættartré væri gott tengja við Skyldleikinn sem ítarefni og það mætti byggja með InfoVis tólunum, nánar tiltekið SpaceTree útfærslunni.